fbpx

Heyrnarfræði við Örebro háskóla í Svíþjóð

Frá og með haustinu 2024 verður heyrnarfræði kennd í fjarnámi frá Örebro háskólanum í Svíþjóð í samstarfi við Símenntun Háskólans á Akureyri og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem námið er í boði á Íslandi og því sérstaklega ánægjulegt að það sé í fjarnámi.

Búið er að loka fyrir umsóknir í námið fyrir haustönn 2024. Næst opnar fyrir skráningar í apríl 2025.

Uppsetning fjarnáms

Námið er sett fram sem blandað fjarnám frá Örebro háskóla í Svíþjóð og hefur verið samþykkt af heilbrigðisráðuneytinu.

Heyrnarfræði á Íslandi nýtt nám

Bóklega námið fer fram sem fjarnám og verður hluti fyrirlestra á sænsku með textun á ensku og aðrir fyrirlestrar á ensku. Allt lesefni, verkefni og próf eru á ensku.

Verknámið fer fram á Heyrnar- og talmeinastöðinni í Reykjavík, svo ekki er gerð krafa um að farið sé til Örebro á námstímanum en möguleiki er á kynnisferð í skólann í upphafi árs.

Hvað er heyrnarfræði?

Námið er þverfagleg heilbrigðisgrein á háskólastigi sem byggir á læknavísindum, tæknifræði og félagsvísindum með heyrn sem aðal viðfangsefni. Grunnnám heyrnarfræðinnar er á BSc stigi með möguleikum á MSc og PHd námi. Til þess að öðlast starfsréttindi sem heyrnarfræðingur þarf BSc próf í greininni.

Möguleikar eru á að sérhæfa sig innan greinarinnar, m.a. í:

  • Enduhæfingu
  • Börnum
  • Kuðungsígræðslu
  • Tinnitus/Eyrnasuði
  • Sérhæfðum hjálpartækjum
Heyrnarfræði sérhæfing í börnum

Starf heyrnarfræðingsins

Heyrnarfræðingar eru löggildir sem heilbrigðisstétt. Í starfi þeirra felst greining heyrnarskerðingar, meðferð og endurhæfing hjá einstaklingum með heyrnarskerðingu. Heyrnarfræðingar meta þörf einstaklingsins fyrir frekari aðstoð í daglegu lífi. Ráðgjöf og fyrirlestrar um heyrn og afleiðingar heyrnarskerðingar eru einnig hluti af starfinu. Stöðug tækniþróun heldur starfi heyrnarfræðinga lifandi og fjölbreyttu.

Starf heyrnarfræðingsins er gefandi og krefjandi á sama tíma. Í starfi sínu hitta heyrnarfræðingar fólk á öllum aldri og með mismunandi vandamál. Það snýst m.a. um að auka lífsgæði skjólstæðinga og aðstoða fólk að taka þátt í samfélaginu, m.a. í vinnu og skóla en einnig að eiga samskipti við vini og ættingja.

Heyrnarfræði

Tæknin er ekki eina lausnin sem heyrnafræðingar hafa til að hjálpa einstaklingum með heyrnaskerðingu. Ráðgjöf og fræðsla sem eykur möguleika fólks til þess að heyra, er stór partur af starfi heyrnarfræðinga sem felur í sér mikil samskipti við annað fólk.

Til að starfa sem heyrnarfræðingur á Íslandi þarf starfsleyfi frá Embætti Landlæknis.

 

Skráning í námið er hafið. Hægt er að skrá sig hér.