fbpx

MSc í Mannauðsstjórnun

Í samstarfi við UHI, bjóðum við núna líka upp á meistaragráðu í mannauðsstjórnun! Sveigjanlegt fjarnám er það sem fólk óskar eftir.

Við erum agalega glöð með þessa þróun að auka samstarf Símenntunar HA við UHI - University of the Highlands and Islands í Skotlandi, en við höfum verið að bjóða MBA nám í gegnum skólann frá árinu 2020. Núna í haust, 2023, bjóðum við einnig upp á MSc í mannauðsstjórnun í 100% fjarnámi og með fullum sveigjanleika.

Hvað þýðir það - með fullum sveigjanleika? Það þýðir að við vitum hversu upptekið fólk almennt er. Við erum flest með marga bolta á lofti en viljum samt halda áfram að þróast í starfi og mennta okkur enn frekar. Námið við UHI er í 100% fjarnámi, það er í alvöru 100% fjarnám - sem sagt engar lotur eða skyldumæting í tíma né annað. Námið er á alþjóðlegum vettvangi svo bæði kennarar og nemendur koma allsstaðar að og hittast í rafrænni kennslustofu (ekki skylda samt 😉 ) til að ræða námsefnið, hlusta á fyrirlestra. Við mælum þó með því að fólk mæti í rafrænu tímana sem eru í boði því þar myndast tengsl á milli kennara og samnemenda sem geta einfaldað námið og hjálpað töluvert. Einnig er bara ansi gaman að kynnast fólki með mismunandi bakgrunn og reynslu, sem og deila sinni eigin reynslu.

MSc gráðan gefur þér alþjóðleg réttindi CIPD sem Mannauðsstjóri og er námið vottað af  QAA (The Quality Assurance Agency for Higher Education) í Bretlandi. Öll kennsla fer fram á ensku sem gefur þér enn meira forskot á alþjóðleg verkefni og fyrirtæki, enda vitum við að heimurinn minnkandi fer með auknum rafrænum möguleikum.

Sveigjanleiki námsins snýr að því að nemendur velja hversu marga áfanga þau taka hverja önn, hægt er að velja frá einum og upp í þrjá. Þrír áfangar er fullt nám. Einnig er hægt að velja um eina eða tvær annir til þess að gera meistaraverkefnið. Fjarnámsþekking UHI og sérstaða skólans gerir það að verkum að allt námið er uppsett í fjarnámi og þeir rafrænu fundir sem eru settir, eru flestir utan hefðbundins vinnutíma og allir eru þar í fjarfundabúnaði, en ekki bara þú eins og fluga á vegg og allir hinir í kennslustofunni.

Við getum ekki dásamað UHI og þeirra námsleiðir nóg - við hreinlega fílum þetta samtarf í botn og hlökkum mikið til að geta boðið upp á enn fjölbreyttara nám í framtíðinni.