fbpx
Gildi símenntunar

Starfsdagur Símenntunar HA

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.

Hver erum við? Þessi spurning á alltaf við, hvort sem við á um einstaklinga, fjölskyldur, hópa, lið, félög, stofnanir eða fyrirtæki. Símenntun HA hélt sinn fyrsta starfsdag í febrúar til að skerpa á einmitt þessu, hvað er Símenntun HA og það sem enn mikilvægara er, hvað viljum við vera og hvernig ætlum við að framkvæma það?

Þrátt fyrir að vera lítið teymi þá eru starfsmenn Símenntunar fullir metnaði fyrir komandi tímum og var ansi ánægjulegt að 100% mæting var á starfsdaginn - enda varla annað hægt en að allir þrír starfsmennirnir mættu. Ströng dagskrá lá fyrir (það er alls ekkert grín) enda verkefnin mörg og mikilvæg.  Teymið sat ekki auðum höndum, stefna Símenntunar tekin fyrir og uppfærð samkvæmt nýjum áherslum, gildi valin sem Símenntun vill standa fyrir, dagskrá ársins skipulögð, hugmyndavinna og meira gott.

Nýjar áherslur er lykilatriði hér því undanfarin ár hafa ýmsar breytingar orðið í starfsemi Símenntunar Háskólans á Akureyri. Þar má nefna að Stefán Guðnason sem áður var verkefnastjóri Símenntunar HA er nú orðinn Símenntunarstjóri, Símenntun byrjaði að bjóða upp á nýja og ferska leið í MBA nám í gegnum UHI, skoskan háskóla og stefnir í enn fleiri skemmtilegar námsleiðir á næstu misserum bætist við flóru Símenntunar.

Símenntun hefur í gegnum tíðina verið með breytt úrval námskeiða en mun nú leggja megin áherslu á námskeið og nám sem er boðið upp á í fjarnámi til að koma til móts við breyttar þarfir samfélagsins. Einnig verður aukin áhersla lögð á símenntun fólks með því markmiði að efla færni einstaklinga á vinnumarkaði og stuðla þannig að öflugri uppfærslu á þekkingu til framtíðar.