fbpx

SÁÁ og Símenntun HA í samstarf

Nú í vikunni var sannkölluð gleðistund þegar ritað var undir samstarfssamning um nám í áfengis-og vímuefnaráðgjöf.

Námið hefur hingað til farið fram í gegnum SÁÁ samhliða starfsþjálfun á heilbrigðisstofnunum SÁÁ. Starfsheitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi var lögleitt árið 2006 og er í dag lögverndað starfsheiti. SÁÁ hefur útskrifað fjölda nemenda sem starfa vítt og breitt um heilbrigðiskerfið, en betur má ef duga skal í ört vaxandi fíkni-samfélagi sem einskorðast ekki einungis við áfengi og vímuefni. Ljóst er að fíknin teygir sig víða og mikilvægt sé að líta á vandann með gleiðlinsu og verða því fíkniráðgjafar enn eftirsóttari innan heilbrigðiskerfisins.

Símenntun HA tekur við náminu og mun bjóða upp á nám í fíkniráðgjöf með sveigjanlegu formi frá og með haustinu 2023. Skráning opnar á næstu dögum.

Námið verður sett upp sem fjarnám með staðarlotum og starfsnámi en eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til að fá starfsleyfi sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi:

  1. Ljúka 3 ára eða 6.000 klukkustundum í vinnu á þar til gerðri heilbrigðisstofnun.
  2. Ljúka 300 kennslustundum.
  3. Fá leiðsögn í 225 klukkustundir og beina handleiðslu í 75 klukkustundir.
  4. Ljúka tilskildum prófum og fengið vottun á starfshæfni.

Undirbúningsvinna og viðræður um framkvæmd á yfirfærslunni hafa staðið yfir í þónokkurn tíma og ánægjulegt að sameiginleg niðurstaða hefur nú fengist.

"Við erum afar stolt af því að taka við þessu verkefni og hlökkum til að geta boðið upp á þetta nám sem hluta að ört vaxandi námsframboði hjá Símenntun HA. Það er vaxandi þörf fyrir ráðgjafamenntað fólk á öllum sviðum og er námið frábært tól fyrir stjórnendur og aðra."

Á myndinni, sem tekin var við undirritun samningsins á skrifstofu Símenntunar HA eru Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar HA og Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ.