fbpx

Nýtt ár – Nýtt???

Já einmitt ... nýtt hvað?

Mörg fara af stað inn í nýja árið full af markmiðum og fyrirheitum á meðan önnur eru ekkert að vesenast í svoleiðis.

Eðli málsins samkvæmt þá erum við í SMHA meira tengd þessu fyrrnefnda. Við erum allt árið að hugsa um ný námskeið eða nám sem við getum boðið upp á, hugsum svo um áramót um hvaða markmiðum við viljum ná á nýju ári ... það er að segja við sem stofnun.  Við sem einstaklingar sem vinnum hérna hjá Símenntun erum mismikið peppuð fyrir markmiðum á nýju ári 😅

En það er nú það sem gerir þetta allt svona skemmtilegt, fjölbreytileikinn, bæði meðal oss og í framboði náms og námskeiða sem við bjóðum upp á. Hér í Símenntun erum við aðeins þrjú að starfa, jahhh við gætum sagt tvö og hálft því Ásdís er í 50% starfi en þar sem hún vinnur svo hratt þá segjum við þrjú. Við teljum okkur ansi heppin með hvort annað og vinnuna, það er gaman í vinnunni og það er gaman að hjálpa fólki að ná sínum markmiðum. En það er akkúrat það sem við erum að gera hér, við erum hér fyrir ykkur, fyrir þau sem vilja þroskast, fræðast, eflast, styrkjast í starfi og persónulega. Við einbeitum okkur að því að hugsa um hvaða nám og námskeið það eru sem ykkur gæti vantað og einsetjum okkur að bjóða upp á það fyrir öll, helst allt í fjarnámi svo búseta skipti ekki máli.

Við vonandi náum að halda þeirri stefnu áfram og halda úti metnaðarfullri dagskrá námskeiða og náms árið 2024. Að því sögðu má alltaf koma með hugmyndir af nýjum námskeiðum til okkar, við nefnilega elskum hugmyndir, nýtt ár og ný námskeið 😀

Bestu þakkir fyrir árið 2023, við vonum að árið 2024 verði ykkur fullt af gæfu, gleði og þroska.

Ásdís, Freydís og Stefán