fbpx

Arctic Microbial Ecology (Örveruvistfræði Norðurslóða)

- Sumarskóli

Yfirlit

Námskeiðið samanstendur af vettvangsferðum, rannsóknarstofuvinnu, fyrirlestrum og verkefnavinnu tengdri náttúrlegri örverubíótu Norðurslóða. Einblínt verður sérstaklega á Norðurland og og nokkrar þær vistgerðir sem það einkenna. Meðal örveruvistkerfa sem könnuð verða beint eða óbeint má nefna ýmis jaðarvistkerfi á borð við jökulís, eyðisand, súra hveri og basíska, en einnig verður hugað að örverulífríki í jarðvegi móa, mela og votlendis. Í vettvangsferðum verður beitt fjölbreyttum sýnatökuaðferðum og hugað að staðarvali og sýnatökutækni sem viðeigandi er fyrir mismunandi rannsóknaspurningar. Markmið námskeiðsins eru þau helst að veita nemendum reynslu af sýnatöku- og rannsóknaraðferðum á vettvangi, þjálfun í algengum örverufræðilegum og sameindalíffræðilegum aðferðum, og innsýn í helstu málefni sem lúta að örveruvistfræði Norðurslóða, þar á meðal áhrifum hnattrænnar hlýnunar og bráðnunar jökla. Jafnframt miðar námskeiðið að því að efla alþjóðleg tengsl nemenda, en námskeiðið er samstarfsverkefni fimm háskóla í fjórum löndum (Íslandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, og Kólumbíu). Námskeiðið er kennt á ensku og hentar nemendum með grunnþekkingu í örverufræði og vistfræði, hvort heldur er á bakkalár- eða meistarastigi.

Hagnýtar upplýsingar

Skráningarfrestur er til 23. apríl 2023. Námskeiðið verður samkvæmt dagskrá.

Nemandi sem lokið hefur námskeiðinu er fær um að:

  • Hanna viðeigandi sýnatökuáætlun fyrir örverusýnatöku úr nokkrum vistgerðum,
  • setja upp og nota viðeigandi ræktunaraðferðir fyrir örverur af ýmsu tagi úr mismunandi vistgerðum,
  • beita algengum aðferðum við einangrun DNA úr bæði umhverfissýnum og örveruræktum og þekkja takmörk þeirra og notagildi,
  • nefna og ræða helstu einkenni ýmissa jaðarörvera og hvernig þau gera örverum kleift að þrífast við jaðaraðstæður,
  • ræða hlutverk örvera í ýmsum vistkerfum og hvernig umhverfisþættir hafa áhrif á þróun örvera,
  • ræða notagildi jaðarörvera í líftækni.

Námsefni samanstendur af völdum ritrýndum greinum á sviði örveruvistfræði, svo og verklýsingum fyrir vettvangsferðir og rannsóknastofuvinnu.

Námið fer að stærstum hluta fram á Akureyri, en í lengri vettvangsferð verður gist í svefnpokaplássi á Raufarhöfn.

Fyrirkomulag fjarnáms

Námskeiðið er að stórum hluta byggt á vettvangsferðum og rannsóknastofuvinnu og er því ekki í boði í fjarnámi.

Dagskrá

Námskeiðið hefst mánudaginn 5. júní 2023 og kennslu lýkur laugardaginn 16. júní. Nemendur munu svo fá frekari gögn úr rannsóknum sínum send eftir því sem þau berast úr mælingum og munu skila lokaskýrslu í september.

Drög að dagskrá (ATH: líklegt er að einhverjar breytingar verði)

Kennarar

Umsjónarkennarar námskeiðsins eru Oddur Þór Vilhelmsson og Auður Sigurbjörnsdóttir, umhverfisörverufræðingar við Háskólann á Akureyri, en auk þeirra kemur erlendra sérfræðinga að kennslunni. Þeirra á meðal má nefna Robert W. Jackson frá Birmingham-háskóla, Mark Silby frá Massachusetts-háskóla, Glyn Barrett frá Reading-háskóla, og Mark Liles frá Auburn-háskóla.

Umsagnir um námskeið

Á YouTube má finna umsagnir nemenda frá fyrri árum um upplifun þeirra af námskeiðinu. Til dæmis:

 

Upphafsdagur

There a no startdates for this programme yet.

Áhugavert námskeið sem vert er að skoða