fbpx

Mikið fjör í leiðsögunáminu

Síðasta önnin er langt komin í leiðsögunámi Símenntunar HA. Áhugaverðar staðlotur voru í byrjun janúar og mars með ótal fyrirlesurum úr bæjarfélaginu og nágrenni. Einnig voru heimsóknir á söfn, í kirkjur og fyrirtæki á Akureyri, svo og æfingaferðir í rútu og gengið um Innbæinn. Mikilvægt er að leiðsögumenn kunni ekki bara söguna heldur þekki einnig vel til íslensks nútímasamfélags og heyri af framtíðaráætlunum bæði stjórnvalda og fyrirtækja. Því var afar ánægjulegt að fá ótal sérfræðinga á mismunandi sviðum til liðs við okkur og kunnum við þeim þakkir fyrir.

Meðal fyrirlesara má nefna þingmennina Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og Njál Trausta Friðbertsson, einnig komu til okkar Hermann Karlsson aðalvarðstjóri lögreglunnar á Akureyri, Ottó Elíasson framkvæmdarstjóri Eims, Þorvaldur Þóroddsson hjá Samherja, Pétur Ólafsson hafnarstjóri, Sigþrúður Stella Jóhannesdóttir hjá Náttúrustofu Norðurlands, Stjörnu- Sævar svo nokkrir séu nefndir. Góður rómur var gerður að þessu og eru nemendur orðnir margs vísari. Í síðustu staðlotu fóru nemendur einnig í gegnum viðamikið skyndihjálparnámskeið undir styrkri stjórn Önnu Sigrúnar Rafnsdóttur og voru þar sett á svið ýmis slys og áverkar fyrir nemendur að bregðast við.

Fram undan er svo sex daga hringferð og útskrift í maíbyrjun. Síðan má ætla að við taki spennandi leiðsögustarf  hjá þessum flottu nemendum sem eru búnir að leggja mikið á sig til að geta kynnt land og þjóð sem best og gert ferðir gesta okkar eftirminnilega.

Næsti hópur í Leiðsögumannanáminu fer af stað í janúar 2025. Opnað verður fyrir skráningar á næstu vikum svo endilega fylgjið okkur á samfélagsmiðlum eða skráið ykkur á póstlistann.

Hér fyrir neðan má sjá skemmtileg brot úr síðustu staðarlotu. Sérstakar þakkir fá Guðný S. Ólafsdóttir og Margrét K. Jónsdóttir fyrir að skrásetja með myndum.