fbpx

MBA útskrift frá UHI Perth

Þann 5. október fór fram útskrift nemenda við UHI - University of the Highlands and Islands.

Símenntun HA átti þar sjö útskrifarnema úr MBA náminu. MBA námið við UHI bíður upp á 100% fjarnám og mikinn sveigjanleika svo hægt er að nema það á sínum hraða og á fimm mismunandi línum. Þær fimm línur sem í boði eru gefa náminu sérstakan blæ og blása fjölbreytni í námið svo nemendur geta valið þá línu sem hentar þeim, innan hverrar línu eru svo að auki mismunandi valáfangar. Það er ljóst að námið er afar fjölbreytt og er mikil ánægja með það hjá nemendum okkar.

Í ár útskrifuðust þau Baldvin Ólafsson, Freydís Heba Konráðsdóttir, Petra Dís Magnúsdóttir og Kristín Lilja Sigurðardóttir af MBA Executive línu, og þau Sunna Guðmundsdóttir,  Helgi Jóhann Björgvinsson og Arna Ómarsdóttir af MBA Environment línu.

Auk þessarra tveggja lína er hægt að velja um Aviation, Resiliance eða Renewable Energy.

IMG_5466
UHI útskrift 2023

 

University of the Highlands and Islands státar af mjög fjölbreyttu úrvali náms á grunn- og framhaldsstigum sem og að vera með aðsetur á mörgum stöðum innan Skotlands. Því var mikið um dýrðir og mikill fjöldi kominn saman í útskriftarathöfninni. Þetta er í annað sinn sem nemendur frá okkur eru að útskrifast úr MBA náminu sem við bjóðum upp á í samstarfi við UHI. Að þessu sinni voru fjórir nemendur mættir til Perth og tóku þátt í hátíðarhöldunum, þau Kristín Lilja, Sunna, Helgi Jóhann og Freydís Heba.

UHI-Perth-Grad-099
UHI-Perth-Grad-100

 

"Það var virkilega gaman að sjá nemendur okkar með þeim hæstu og sjá metnaðinn sem hefur verið lagður í námið" sagði Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri sem var mættur til að taka þátt í athöfninni og þótti mikið til koma.

Athöfnin er hin hátíðlegasta og mikil upplifun fyrir okkar nemendur að hittast þar, hitta samnemendur og kennara sem þau hafa aðeins hitt í gegnum fjarfundi. Eftir hátíðina var boðið upp á móttöku fyrir nemendur og gesti þeirra í Perth Concert Hall ásamt því að starfsfólk og nemendur gengu í skrúðgöngu í gegnum bæinn með hóp sekkjapípuleikara í fararbroddi og heiðursvörðum.

Helgi Jóhann hafði það á orði að enginn nemandi ætti að missa af þessari upplifun, að útskrifast með pompi og prakt, sérstaklega þegar fólk er í fjarnámi og stundar námið sitt mest í einrúmi þá sé þetta eins konar uppskeruhátíð sem gefur mikið gildi og gefur allri vinnunni sem á bak við gráðuna stendur, meira vægi.

Í haust fórum við af stað í fjórða sinn með MBA námið í samstarfi við UHI sem og í fyrsta sinn með meistaranám í mannauðsstjórnun við UHI Inverness. Við hlökkum til að halda áfram þessu farsæla samstarfi við skólann og fylgja nemendum út til Skotlands í útskriftarhátíðina.

Við óskum nemendum okkar innilega til hamingju með áfangann og hlökkum til að fylgja enn fleirum til Skotlands á komandi árum.

PHOTO-2023-10-06-17-21-26
UHI-Perth-Grad-029
UHI-Perth-Grad-116
UHI-Perth-Grad-120
UHI-Perth-Grad-107
UHI-Perth-Grad-052