fbpx

Heyrnarfræði á Íslandi

Í gær, 29. febrúar 2024, skrifaði Stefán Guðnason, forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri undir samning ásamt Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) og Háskólanum í Örebro í Svíþjóð sem gerir kleift að bjóða upp á háskólanám í heyrnarfræðum í fyrsta sinn hér á landi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir samninginn marka tímamót: „Það hefur verið skortur á sérþjálfuðum heyrnarfræðingum hér á landi. Nú má vænta þess að þeim fjölgi á næstu árum og að hægt verði að stórbæta þjónustu við fólk með heyrnarskerðingu hér á landi.“

Námið hefur verið kennt við háskólann í Örebro lengi vel og verður nú fært í fjarnámsbúning til þess að gera fleirum kleift að stunda námið án þess að flytja búferlum.

Það hefur verið baráttumál HTÍ um árabil að komið verði á fót námi í heyrnarfræðum á háskólastigi hér á landi. „Með þessum samstarfssamningi er loks tryggt að íslensk heyrnarþjónusta getur tryggt framboð af sérmenntuðum heyrnarfræðingum en þarf ekki að leita eftir erlendum sérfræðingum til starfa líkt og þurft hefur síðasta áratug. Nú fáum við hágæða háskólanám og innleiðum jafnframt verklega þjálfun hér á landi sem veitir íslenskum heyrnarfræðingum enn fremur ómetanlega reynslu.“ segir Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.

Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Kristján Sverrisson forstjóri Heyrnar - og talmeinastöðvar Íslands, undirrita samstarfssamning um nám í heyrarfræðum við Örebro háskóla í Svíþjóð.
Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Kristján Sverrisson forstjóri Heyrnar - og talmeinastöðvar Íslands, undirrita samstarfssamning um nám í heyrarfræðum við Örebro háskóla í Svíþjóð.

Símenntun Háskólans á Akureyri (SMHA) er með áralanga reynslu á sviði fjarkennslu, samvinnu við aðra háskóla og erlendu samstarfi. SMHA mun sjá um umsjón og umsýslu með náminu.

"Okkar framtíðarsýn er að við þjónum sem brú á milli íslensks markaðar og framboðs á námi erlendis. Við erum afar stolt af því að taka við þessu verkefni og hlökkum til að geta boðið upp á þetta nám sem hluta að ört vaxandi námsframboði hjá Símenntun Háskólans á Akureyri. Það er vaxandi þörf fyrir heyrnarfræðinga á landinu og það að geta boðið upp á námið í fjarnámi gefur enn meiri möguleika fyrir fólk alls staðar af landinu." segir Stefán Guðnason, forstöðumaður SMHA.

Öll bókleg kennsla fer fram í gegnum Háskólann í Örebro og munu fyrirlestrar ýmist vera á sænsku með enskri textun eða á ensku. Allt lesefni er á ensku, sem og þau verkefni og próf sem í náminu eru. Umsjón með verklegri þjálfun nemenda verður á hendi HTÍ í umboði Háskólans í Örebro (Örebro Universitet). Kennsla hefst næsta haust og verða a.m.k. fjórar námsstöður í boði ár hvert.

„Við hjá Háskólanum í Örebro erum stolt af þessu sænsk-íslenska samstarfi sem hefur skilað glænýrri námsbraut á BA-stigi í heyrnarfræðum. Við hlökkum til samstarfsins og áframhaldandi þróunar þess og fögnum gagnkvæmum ávinningi og nýjum tækifærum sem það mun án efa hafa í för með sér“ segir Johan Schnürer, rektor háskólans.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri fagnar undirritun samningsins og að tekist hafi með þessum hætti að veita aðgengi að menntun í Heyrnarfræðum með nýjum og nýstárlegum hætti. Með stafrænni miðlun náms er hægt að auka fjölbreytni náms sem stendur til boða hér á landi. Þetta gerir íslenskt samfélag bæði fjölbreyttara og sterkara og þar með tilbúið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Skráning í námið er ekki enn komin af stað en nánari upplýsingar um námið má finna HÉR, einnig hvetjum við þau sem eru áhugasöm að senda okkur línu á smha@smha.is