fbpx

Útskrift úr Stjórnendanáminu 2023

Það var föngulegur hópur sem útskrifaðist úr Stjórnendanáminu föstudaginn 31. maí. Athöfnin fór fram í húsakynnum Læknafélagsins Hlíðarsmára 8, Kópavogi og sá STF um veisluna sem var hin glæsilegasta. Starfsmenn Símenntunar HA og STF voru mætt ásamt nokkrum kennurum í náminu sem og útskriftarnemum og fjölskyldum þeirra.

Að þessu sinni útskrifuðust tíu nemendur, þau Baldur Baldursson, Björn Víkingur Björnsson, Einar Vignir Sigurðsson, Elís Traustason, Erlingur Guðbjörnsson, Erna Sif Þorkelsdóttir, Guðmundur Grétar Einarsson, Karles Örn Ólafsson, Pálína Hildur Sigmarsdóttir og Starri Heiðmarsson. Við óskum þessum flottu nemendum innilega til hamingju með áfangann og velfarnaðar í næstu verkefnum.

"Fyrirtæki eru farin að átta sig á hvers virði góður millistjórnandi er og eru í auknum mæli farin að óska eftir því við stjórnendur að þeir fari í stjórnendanámið okkar. Góður stjórnandi sem heldur uppi góðu skipulagi og góðum anda eykur framlegð fyrirtækis og starfsánægju starfsfólks og er það ómetanlegt hverju fyrirtæki" sagði Bjarni Þór Gústafsson forseti STF í ræðu sinni en hann hélt utan um dagskránna eins og honum einum er lagið.

Næst steig í pontu Stefán Guðnason forstöðumaður SMHA og sá sem hefur borið ábyrgð á þessu námi fyrir hönd HA frá upphafi samstarfsins. Stefán talaði um upphaf námsins og hversu stolt við erum af náminu, því það hafi sýnt sig aftur og aftur hversu öfluga stjórnendur námið gefi af sér. Jóhann Baldursson fráfarandi framkvæmdastjóri tók heils hugar undir þessi orð Stefáns en Jóhann var einn þeirra sem komu að því að færa námið úr gamla Verkstjórnarnáminu og yfir í þann búning sem það er í í dag.

Fyrir hönd nemenda hélt Einar Vignir Sigurðsson ávarp en hann hefur undanfarin tvö ár verið í náminu. Einar sagði frá því hvað hafi komið honum á óvart þegar hann hóf námið, "ég get ekki hætt að dásama þetta nám, en það sem kom mér á óvart eru gæðin, gæði námsins, og gæði kennslunar og kennaranna. Kennarnir eru á svo háu leveli, þetta eru doktorar og algjörir sérfræðingar í sínum fögum en taka sig til og kenna svona endurmenntunarnámskeið".

Við hjá SMHA þökkum nemendum og kennurum fyrir frábært samstarf sem og STF fyrir flotta veislu og metnað þegar kemur að náminu og gæðum þess.

Fleiri myndir frá athöfninni: