
Útskrift úr Stjórnendanámi – Ný kynslóð öflugra stjórnenda
Þann 30. maí útskrifuðust 15 stjórnendur úr fimm anna diplómanámi í Stjórnendanámi í umsjón Símenntunar Háskólans á Akureyri. Námið er kennt að öllu leyti í fjarnámi og sérhannað til að efla stjórnendur á Íslandi með gagnleg verkfæri og djúpa innsýn í síbreytilegt rekstrarumhverfi.
Það var virkilega ánægjulegt að sjá útskriftarnemendur koma víðs vegar að af landinu ásamt fjölskyldum sínum til að fagna þessum merka áfanga. Athöfnin var látlaus og persónuleg; Bjarni Þór Gústafsson, forseti STF og mennta- og kynningarfulltrúi, stýrði henni af röggsemi og flutti upphafsræðu.
"Það sem gerir þetta nám svo einstakt er að það var mótað með þarfir starfandi stjórnenda að leiðarljósi. Það sameinar fræðilega dýpt við hagnýta nálgun og gerir það kleift að stunda það samhliða vinnu – án þess að fórna gæðum. Þetta er raunveruleg fullorðinsfræðsla, sniðin að þeim veruleika sem við lifum við í dag – þar sem hraði, áskoranir og ábyrgð fylgja hlutverkinu frá degi til dags." sagði Bjarni.
Símenntun HA, kennarar Stjórnendanámsins og STF óska útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann.
Þau sem útskrifuðust eru:
- Birna Dögg Guðmundsdóttir
- Briet Arnardóttir
- Bylgja Dögg Kristjánsdóttir
- Elvar Bjarki Gíslason
- Eygló Sif Halldórsdóttir
- Guðný María Waage
- Hinrik Þór Einarsson
- Ida Sofia Grundberg
- Jóna Árný Sigurðardóttir
- Mjöll Guðjónsdóttir
- Pétur Magnússon
- Ragnheiður Eggertsdóttir
- Ragnheiður María Rögnvaldsdóttir
- Sævar Jóhannsson
- Valtýr Örn Gunnlaugsson
"Námið hefur opnað mér nýjar leiðir og víkkað sjóndeildarhringinn á hátt sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir áður. Ég hef strax getað nýtt þekkinguna beint í starfi og sé skýran ávinning í daglegu lífi á vinnustað.
Ég mæli eindregið með þessu námi, það hefur ekki aðeins staðist allar mínar væntingar, heldur farið langt fram úr þeim." - Guðný María Waage


Réttu verkfærin eru mikilvæg
Á vinnumarkaði dagsins í dag er þörf á stjórnendum og millistjórnendum sem hafa rétt verkfæri til að takast á við áskoranir nútímans. Ef eina verkfærið sem til er er hamar, verða öll vandamál að nagla. Þeir sem hafa aðgang að fjölbreyttri og vel útfærðri verkfærakistu eru betur í stakk búnir til að leysa ólík verkefni og ná meiri árangri í stjórnun.
Stjórnendanámið veitir meðal annars fagleg og sjálfstæð vinnubrögð, sem stuðla að auknu sjálfstrausti og starfsánægju. Aukin tækifæri á vinnumarkaði, óháð fyrri menntun og engar forkröfur eru gerðar um formlega menntun.
Raunveruleg viðfangsefni
Stjórnendanámið snýst um að vinna með raunveruleg viðfangsefni og verkefni sem efla færni stjórnenda til að takast á við raunverulegar áskoranir.
Stjórnendanámið samanstendur af fimm lotum sem veita heildstæða þjálfun fyrir stjórnendur og millistjórnendur:
-
Lota 1 – Ég stjórnandinn: Sjálfsþekking og eigin hlutverk í stjórnun.
-
Lota 2 – Stjórnun mannauðs: Mannauðsstjórnun, velferð, samskipti og lausn starfstengdra mála.
-
Lota 3 – Fyrirtækið – Skipulag: Skipulag fyrirtækja, stefnumótun, gæðakerfi og öryggi.
-
Lota 4 – Fyrirtækið – Rekstur: Rekstraráætlanir, markmiðasetning, framleiðni og hagræðing.
-
Lota 5 – Fyrirtækið í nútíð og framtíð: Ytra umhverfi fyrirtækja, samfélagsábyrgð og þróun til framtíðar.
80% endurgreiðsla námskostnaðar
Stjórnendanámið var byggt upp af STF og SA á sínum tíma og fæst 80% styrkur fyrir námskostnaði endurgreiddur fyrir félaga í stjórnendafélögum STF. Að auki er námið styrkhæft hjá öðrum fræðslusjóðum stéttafélaga, sem auðveldar fjármögnun þess fyrir einstaklinga og vinnuveitendur.
STF hefur staðið ötullega á bak við námið og samdi nýverið við Samband íslenskra sveitarfélaga um 2% hækkun persónuálags fyrir félaga STF sem ljúka náminu. Námið er einnig metið sem ígildi 30 ECTS við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri.

Steinunn Ketilsdóttir, sérfræðingur í fræðslu og þróun hjá Marel, og kennari í Stjórnendanáminu hélt tölu við útskriftina fyrir hönd kennara um mikilvægi þess að endurskoða reglulega námsefnið í takt við tímann og spilaði lag samið um nemendur með hjálp gervigreindar.
„Í ljósi hraðra tæknibreytinga höfum við endurskoðað námsefnið og innleitt kennslu í gervigreind, því stjórnendur framtíðarinnar þurfa að vera tæknilega læsir og tilbúnir til að taka forystu í breyttum heimi.“
Vertu með næsta haust!
Næsti hópur í Stjórnendanáminu fer af stað 5. október 2025 og skráning er í fullum gangi. Allar frekari upplýsingar má finna á stjornendanam.is
Hér fyrir neðan má sjá skemmtilegar tilvitnanir frá nemendum sem og myndir úr útskriftinni.

"Stjórnendanámið færði mér verkfæri sem ég vissi ekki að ég gæti notað í stjórnun og gerði mig þar af leiðandi að betri stjórnenda fyrir vikið. Námið hjálpaði mér að fara út úr þægindarammanum sem ég var komin í sem stjórnandi og hvernig ég tók á vandamálum og áskorunum. Ég er tilbúnari að takast á við verkefni sem mér færast og leysa þau á áhrifaríkari þátt. Félagsskapurinn og spjöllin sem hafa myndast hjá okkur samnemendunum eru gulls ígildi því við fengum tækifæri til að læra líka af hvort öðru ásamt því að mynda tengslanet okkar á milli sem við getum nýtt okkur í framtíðinni. Ég myndi mæla með Stjórnendanáminu fyrir alla sem eru ekki tilbúnir í háskólanám en vilja samt bæta við sig þekkingu, eins og ég gerði."

"Stjórnendanámið hefur hjálpað mér mikið varðandi stjórnun, samskipti við innri og ytri aðila og hvernig á að bregðast við óvæntum uppákomum. Einnig hefur námið hjálpað mér mikið við að skipuleggja vinnu mína. Veitt mér innsýn í alls konar reglugerðir og gæðakerfi sem er stór hluti af minni vinnu. Alveg klárlega eitt af mínum bestu ákvörðunum að hafa skellt mér í þetta nám. Algjör snilld að geta verið heima hjá sér og sinnt náminu og með aðgengi að kennurum."