fbpx

Útskrift leiðsögunámsins

Það var heldur betur gleðidagur hjá okkur þann 4. maí síðastliðinn þegar útskrift úr leiðsögunáminu Ísland alla leið fór fram. Alls útskrifuðust 11 nemendur úr náminu en þau hófu ferðalagið í janúar 2023.

Starf leiðsögumanns er bæði skemmtilegt og gefandi. Þetta starf er einnig mjög mikilvægt innan ferðaþjónustunnar þótt það sé ekki alltaf miðpunktur umræðunnar um ferðamenn. Við hjá Símenntun erum ákaflega stolt af því sem við erum með hér í höndunum. Leiðsögunám í blönduðu fjarnámi er verkefni sem við vildum leggja af stað með til þess að mæta þeirri miklu þörf fyrir vel menntaða leiðsögumenn sem uppi er hér á landi. Ásdís Sigríður Þorsteinsdóttir verkefnastjóri hjá SMHA ávarpaði samkomuna og talaði um þá þrautseigju sem þarf til þess að klára svona nám:

"Þið hafið lagt á ykkur mikla vinnu til að komast á þennan stað og fyrir það ber að hrósa ykkur. Líkt og í erfiðari göngu, inn fallegan fjörð, kemur litla röddin í höfðinu á manni ansi oft upp sem vill að maður hætti og snúi við. En með því að taka þetta eitt skref í einu, njóta útsýnisins og ná inn í botn fjarðarins, segjum við þessari rödd að hafa hljóð, því við ætlum að njóta augnabliksins. Þrautsegjan sem þið hafið sýnt að klára þetta nám samhliða öllu öðru sem þið eruð að gera er miklu meira en þið gerið ykkur grein fyrir og því megið þið vera stolt af. Það er alltaf auðveldara að hlusta á litlu röddina og hætta, en það er aldrei eins gaman og þegar uppi er staðið."

Verkefnastjórar námsins þær Margrét K. Jónsdóttir og Ingibjörg Elín Jónasdóttir hafa staðið í ströngu undan farin tvö ár við að koma náminu yfir í fjarnámsbúning og leiða nemendur í gegnum námið ásamt því að kenna sjálfar og sjá um meginhluta verkefna sem koma að náminu. Símenntun HA vill að þessu tilefni þakka þeim kærlega fyrir frábært starf og gott samstarf sem hefur leitt af sér afburða gott nám. Við hjá SMHA hlökkum til að vinna áfram með þeim og sjá námið dafna og þróast áfram í takt við líðandi stund.  Í ræðu sinni við útskriftina vísaði Margrét í ræðu fráfarandi formanns SAF samtaka ferðaþjónustunnar Bjarnheiðar Hallsdóttur sem hún hélt í 50 ára afmælisfagnaði Leiðsagnar, Félags leiðsögumanna fyrir tveimur árum. Þar segir Bjarnheiður:

"Leiðsögumenn eru andlit Íslands gagnvart erlendum gestum, þeir eru sendiherrar, þeir eru öryggisfulltrúar, þeir eru verðir náttúrunnar og umhverfisins, þeir túlka náttúruna, þeir eru upplýsingafulltrúar, þeir eru leiðtogar og málamiðlarar, þurfa að vera frábærir í samskiptum, vel læsir á menningu og menningarmun, þurfa að vera útsjónarsamir, stundvísir, fróðir um sögu, menningu, listir, stjórnmál, landafræði, jarðfræði, samfélagsmál, jurtir og dýralíf  - og bara allt milli himins og jarðar. Og ofan á þetta allt - að vera helst afburða skemmtilegir!"

Eins og sjá má á þessari upptalningu er starf leiðsögumanna ansi krefjandi og námið er það líka. Námið er sett upp sem þriggja anna nám með reglulegum vettvangsferðum og staðarlotum hérna á Akureyri. Vettvangsferðirnar og hringferðin er afar mikilvægur og dýr hluti af náminu og ljóst að erfitt væri að brúa þann kostnað ef ekki hefði alla tíð verið mikill vilji og skilningur á mikilvægi þessa leiðsögunáms hjá SBA - Norðurleið. Fyrirtækið hefur verið styrkur bakhjarl okkar um langt skeið og séð okkur fyrir rútum og bílstjórum og er það rausnarlegt framlag til nærsamfélagsins sem ber að þakka og gleðjumst við jafnframt yfir áframhaldandi samstarfi við SBA Norðurleið.

Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim velfarnaðar í framtíðinni. Sérstaklega vonum við að námið eigi eftir að opna þeim fjölbreytta möguleika í lífi og starfi.

Nú er hafin skráning í námið sem hefst í janúar 2025 en skráningarfrestur er til 1. september 2024. Hámarksfjöldi er í námið og hvetjum við því áhugasama um að sækja um sem fyrst.

Útskriftarhópurinn, frá vinstri: Marta Einarsdóttir, Anna Sigrún Rafnsdóttir, Eydís Valgarðsdóttir, Guðný Sigríður Ólafsdóttir, Kristján Hreinsson, Margrét Líney Laxdal, Jónas Þór Karlsson, Arna Garðarsdóttir, Hrafnhildur Linda Ólafsdóttir og Brynhildur Bjarnadóttir. Á myndina vantar Evu Hjaltalín Ingólfsdóttur sem komst ekki á útskriftarathöfnina.
Útskriftarhópurinn, frá vinstri: Marta Einarsdóttir, Anna Sigrún Rafnsdóttir, Eydís Valgarðsdóttir, Guðný Sigríður Ólafsdóttir, Kristján Hreinsson, Margrét Líney Laxdal, Jónas Þór Karlsson, Arna Garðarsdóttir, Hrafnhildur Linda Ólafsdóttir og Brynhildur Bjarnadóttir. Á myndina vantar Evu Hjaltalín Ingólfsdóttur sem komst ekki á útskriftarathöfnina.