
SMHA og SÍSP hefja samstarf um endurmenntun starfsfólks sparisjóða
Símenntun Háskólans á Akureyri (SMHA) og Samband Íslenskra Sparisjóða (SÍSP) hafa undirritað samstarfssamning um markvissa endurmenntun og símenntun fyrir starfsfólk sparisjóða víðs vegar um landið.
Markmið samstarfsins er að bjóða upp á sérsniðna fræðslu sem eflir faglega hæfni, styður við persónulegan og faglegan vöxt og bætir þjónustugæði í fjármálageiranum.
Samstarfið felur í sér fjölbreytt námskeið og vinnustofur – bæði í staðnámi og fjarnámi – sem miðast við þarfir hvers sparisjóðs. Námskeiðin ná meðal annars yfir efni eins og fjármálastjórnun, þjónustufærni, notkun gervigreindar, reglugerðir í fjármálaumhverfi og forystuhæfni.
„Við erum afar ánægð með þetta samstarf við SÍSP. Það gerir okkur kleift að bjóða sveigjanlega og hagnýta fræðslu sem styður við faglega þróun starfsfólks sparisjóða um allt land,“ segir Stefán Guðnason, forstöðumaður SMHA.
Guðmundur Tómas Axelsson, framkvæmdastjóri SÍSP, tekur undir:
„Endurmenntun er lykill að framþróun og auknum gæðum. Með þessu samstarfi tryggjum við að starfsfólk sparisjóðanna fái aðgang að vönduðu námi sem skilar sér beint í betri þjónustu við viðskiptavini.“
Námskeiðin verða kynnt nánar á næstu vikum og geta starfsmenn skráð sig í gegnum vefsíðu SMHA eða í samstarfi við sinn vinnustað.
Ef þín stofnun eða þitt fyrirtæki þarf á ákveðinni fræðslu að halda, þá getið þið leitað til okkar. Við höfum aðgang að færum kennurum og góðu kerfi til að setja öll þau námskeið upp sem þið þurfið. Hvort sem það er í staðarnámi eða fjarnámi. Sendu okkur línu á simenntunha@simenntunha.is ef þið hafið einhverjar spurningar um okkar þjónustu.