Símenntun x TechEX
Símenntun Háskólans á Akureyri sótti alþjóðlega ráðstefnu um gervigreind í San Jose, Kaliforníu í byrjun júní ásamt vinum okkar í kennslu- og upplýsingamiðstöð Háskólans á Akureyri (KHA). Saman höfum við hjá SMHA og KHA unnið saman í mörgum erlendum verkefnum sem öll miða að fjarnámi og nú farin að tengjast enn meir gervigreind.
Ráðstefnan TechEX bar yfirskriftina "AI in Education: Shaping the Future of Learning" varð fyrir valinu enda hlutu stofnanirnar nýverið styrk frá Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins að upphæð 60 milljóna.
Stefán Guðnason, forstöðumaður SMHA, lýsti ferðinni sem afar gagnlegri fyrir stofnunina. "Við fengum tækifæri til að læra um nýjustu þróun í gervigreind og hvernig við getum nýtt hana til að bæta og auka fjarnám og símenntun á Íslandi," sagði Stefán í viðtali eftir heimkomuna. Fyrirlestur um þróun gervigreindar í þjónustustörfum frá Jaya Gali framkvæmdastjóra Walmart var meðal þess sem stóð upp úr sem og heimspekilegar spurningar um hvert notkun AI mun leiða, hvað þarf að varast og hvaða vandamál geta komið upp í framtíðinni sem okkur dettur ekki í hug núna.
Á ráðstefnunni var fjallað um ýmis málefni tengd gervigreind í menntun, þar á meðal persónumiðað nám, sjálfvirkt mat á verkefnum og notkun sýndarveruleika í kennslu. Fulltrúar SMHA kynntu sér einnig verkefni á sviði fjarnáms og notkun tækni í dreifðu námsumhverfi.
"Við komum heim full af innblæstri og nýjum hugmyndum sem við hlökkum til að innleiða í starfsemi okkar á Akureyri," bætti Stefán við. Hann sagði að þátttaka SMHA í ráðstefnunni væri liður í stefnu háskólans um að vera í fremstu röð í nýsköpun og tækniþróun í menntun.
Ásamt því að læra um gervigreind fór hópurinn í heimsókn og fékk kynningu um Stanford háskóla sem var afskaplega skemmtilegt og gefandi. Hópurinn nýtti tímann vel og kíkti einnig til San Francisco í skoðunarferð.
Við heimkomu hófst strax vinna við að greina og meta þær upplýsingar og hugmyndir sem söfnuðust á ráðstefnunni og í ferðinni en strax í haust bjóðum við upp á fyrsta námskeiðið sem tengist gervigreind en það er Að temja tæknina: að nýta gervigreind í starfi sem Magnús Smári Smárason mun kenna.
Við hlökkum til framtíðarinnar og búumst við því að þessi reynsla muni hafa jákvæð áhrif á framtíð símenntunar og fjarnáms við Háskólann á Akureyri á komandi misserum. Tækifærin eru fjölmörg en einnig mikilvægt að vanda vel til verka með þessu nýja tóli sem komið er til að vera.
Hér fyrir neðan eru svo nokkrar myndir úr ferðinni.