fbpx

Ísland alla leið

- Leiðsögunám

Yfirlit

Námið hefst 9. janúar 2025! 

Skráningarfrestur er liðinn en það er enn hægt að bætast við hópinn - hafðu samband við okkur á smha@smha.is eða í síma 460-8090 :)

Leiðsögn erlendra ferðamanna, fyrst svæðisleiðsögn og síðan leiðsögn um landið allt, hefur lengi verið kennd við Símenntun Háskólans á Akureyri. Við endurskoðun námsins árið 2022 var horft til skýrslu starfshóps ferðamálaráðuneytis frá 2021 um menntun leiðsögumanna á Íslandi og Evrópustaðalsins ÍST EN15565:2008 (Tourism Services-Requirements for the provision of professional tourist guide training and qualification programmes) að viðbættum fjórum séríslenskum þáttum er varða öryggi, náttúruvernd, neytendavernd og sjálfbærni.

Verklegur hluti námsins er í samstarfi við SBA-Norðurleið.

Hagnýtar upplýsingar

Meginmarkmið leiðsögunámsins

Meginmarkmið leiðsögunámsins er að nemendur öðlist staðgóða þekkingu og færni til að geta sinnt starfi leiðsögumanns af fagmennsku og í samræmi við Evrópustaðalinn ÍST EN 15565:2008.

Að námi loknu á nemandi að:

  • Hafa tileinkað sér lykilfærni leiðsögumanns í samskiptum við ferðamenn og ferðaþjónustuaðila.
  • Hafa skilning á þörfum fólks af ólíkum uppruna og geti mætt þörfum þess.
  • Þekkja sérstöðu Íslands hvað varðar náttúru, sögu og menningu og vera fær um að miðla viðeigandi upplýsingum til ferðamanna þannig að upplifun þeirra verði jákvæð en raunhæf.
  • Búa yfir víðtækri þekkingu á helstu ferðamannastöðum og leiðum og vita hvaða afþreying og þjónusta er í boði á hverjum stað.
  • Geta aflað gagna fyrir fjölbreyttar ferðir með ólíka hópa ferðamanna um landið ásamt því að veita áreiðanlegar upplýsingar hverju sinni.
  • Vera meðvitaður um helstu skipulagsþætti ferða, geta lagt mat á ferðagögn og mótað ferðir með leiðsögn um landið í samræmi við væntingar vinnuveitanda og gesta.
  • Búa yfir fullnægjandi orðaforða og kunnáttu í því tungumáli sem leiðsagt er á.
  • Vera meðvitaður um mikilvægi þess að fylgja ætíð settum öryggisreglum og vera til fyrirmyndar þegar kemur að umgengni við náttúruna, náttúruvernd og sjálfbærni.
  • Hafa skilning á eðli ferðaþjónustunnar sem atvinnugrein, mikilvægi hennar og umfangi.
  • Þekkja lög og reglugerðir sem tengjast störfum leiðsögumanna.

 

Einstaklingar sem hafa lokið námi í ferðamálafræðum og vilja bæta við sig leiðsögunámi geta sótt um að fá sambærilega áfanga metna inn í námið. Einnig geta eldri leiðsögumenn sótt um að sækja einstaka áfanga.

Leiðsögumenn sem starfa á Íslandi skulu hafa menntun í skyndihjálp og björgun í samræmi við gæðaviðmið SAF og leiðbeinandi reglur Ferðamálastofu um öryggismál.

Til að útskrifast þurfa nemendur að hafa lokið 20 klukkustunda námskeiði í skyndihjálp/fyrstu hjálp. Nemendur þurfa að greiða fyrir það námskeið aukalega en á vormisseri 2026 mun Símenntun HA halda námskeið sem uppfyllir þær kröfur.

Nemendur sem útskrifast sem leiðsögumenn geta sótt um félagsaðild að Leiðsögn - stéttarfélagi leiðsögumanna.

Fyrirkomulag fjarnáms

Námið spannar þrjú misseri; vor 2025, haust 2025 og vor 2026.

  • Námið er að stórum hluta fjarnám og spannar þrjú misseri. Það er skipulagt þannig að mögulegt er að sinna því samhliða starfi og búa hvar sem er á landinu. Umfang námsins er 700-900 klukkustundir.
  • Á hverju misseri verða þrjár staðarlotur á Akureyri sem nemendur eiga að mæta í, oftast frá fimmtudegi til sunnudags. Skyldumæting er í staðarlotur.
  • Fyrirlestrar eru teknir upp og verða aðgengilegir nemendum í kennsluvef námsins.
  • Af og til má reikna með fjarkennslu í rauntíma.
  • Vettvangs- og æfingaferðir eru skipulagðar yfir námstímann og endar námið á sex daga ferð um landið. Gert er ráð fyrir 100% þátttöku í þessum ferðum.
  • Kennsla í leiðsögunáminu fer fram á íslensku.
  • Nemendur eru þjálfaðir í framsetningu efnis á ensku og þýsku en ekki er um eiginlega tungumálakennslu að ræða.

Námið hefst með staðarlotu fimmtudaginn 9. janúar 2025. Aðrar staðarlotur á fyrsta misseri eru áætlaðar 6. - 9. mars og 1. - 4. maí. Annað misseri hefst seinni hluta ágústmánaðar og lýkur í byrjun desember. Þriðja misseri hefst í byrjun janúar 2026 og lýkur í byrjun maí 2026. Sumarið 2025 þurfa nemendur að reikna með að verja 3-5 dögum í verkefnavinnu og kynnisferðir.

Efnisskrá
Inntökuskilyrði
  • Tuttugu ára aldurstakmark.
  • Stúdentspróf, sambærileg menntun eða raunfærnimat.
  • Gott vald á íslensku.
  • Standast inntökupróf í því tungumáli sem umsækjandi hyggst nota í leiðsögn og skólinn getur boðið upp á þjálfun í.

Inntökupróf í erlendum tungumálum (ensku og þýsku) verða haustið 2024. Inntökupróf er innifalið í staðfestingargjaldi. Nánari tímasetning er auglýst síðar.

Dagskrá

Kennslutilhögun

Námið skiptist á þrjár annir og er skipulagt þannig að hægt sé að sinna því samhliða starfi og óháð búsetu. Á hverri önn eru þrjár staðlotur en þess á milli stunda nemendur nám í gegnum Canvas kennsluvef skólans. Fyrirlestrar og annað kennsluefni verður aðgengilegt á kennsluvefnum og munu fyrirlestrar birtast nemendum þar á mánudögum og þriðjudögum. Að auki munu kennarar í einstökum námskeiðum boða til fjarfunda með nemendum.

Skyldumæting er í staðlotur á Akureyri sem eru alla jafnan frá hádegi á fimmtudegi til seinni parts á sunnudegi en þá er m.a. farið í æfingaferðir. Sömuleiðis verða allir nemendur að taka þátt í hringferð um landið í lok vorannar 2026.

Kennsla fer fram á íslensku.

Til að útskrifast þurfa nemendur að hafa lokið 20 klukkustunda námskeiði í skyndihjálp/fyrstu hjálp. Símenntun HA mun standa fyrir slíku námskeiði á vorönn 2026 en nemendur þurfa að greiða sjálfir fyrir það.

Kennarar

Verkefnastjórar námsins
 

Fagráð og umsjón með námi

  • Stefán Guðnason, forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri
  • Margrét K. Jónsdóttir, fagleg umsjón
  • Ingibjörg Elín Jónasdóttir, fagleg umsjón
  • Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála
  • Elías Bj. Gíslason forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs Ferðamálastofu

Kennarar

Fjölmargir kennarar og fyrirlesarar koma að náminu, hver og einn sérfræðingur á viðkomandi sviði.

Kostnaður

Námið spannar þrjár annir, frá upphafi árs 2025 til vors 2026.

Heildarverð námsins er kr. 790.000, þar af er óafturkræft staðfestingargjald kr. 75.000, inntökupróf er innifalið í staðfestingargjaldi. Nemendur þurfa einnig að greiða fæði í öllum ferðum svo og gistingu í hringferð um landið. Námsgögn, utan efnis frá kennurum, eru ekki innifalin í skólagjöldum.

Skipta má greiðslum í tvennt fyrir upphaf misseris án auka kostnaðar. Einnig er hægt að greiða námið með raðgreiðslu Valitors í allt að 36 mánuði.

Ekki er hægt að krefjast endurgreiðslu ef nemandi ákveður að hætta í námi á námstíma.

Styrkir:

SBA-Norðurleið styrkir námið með því að leggja til rútu og bílstjóra í æfinga- og vettvangsferðir. 
Vakin er athygli á að ýmis stéttarfélög og vinnuveitendur veita góða námsstyrki. Einnig er vakin athygli á að hjá Vinnumálastofnun eru upplýsingar og ráðgjöf varðandi margvísleg námsúrræði fyrir einstaklinga í atvinnuleit.

Skráning:

Við skráningu í námið hér á síðunni hefst ferlið, í framhaldinu fær viðkomandi tölvupóst frá SMHA þar sem óskað er eftir stuttu yfirliti yfir náms- og starfsferil. ATHUGIÐ að skrá “greiðsluseðill” í greiðsluleið við skráningu til þess að greiða ekki strax fyrir all námið fyrir þau sem vilja dreifa greiðslum.

Umsagnir um námskeið

Ég var í hópi þeirra nemenda sem luku í vor fyrsta leiðsögunáminu frá Símenntun Háskólans á Akureyri sem kennt var sem fjarnám með staðlotum. Það hentaði mér mjög vel að geta horft á fyrirlestrana þegar mér hentaði og síðan voru staðloturnar ákaflega skemmtilegar og lærdómsríkar. Þar fékk maður tækifæri til að kynnast samnemendum og kennurum og einnig var farið í kynnisferðir og dagsferðir á helstu ferðamannastaði í nágrenninu. Toppurinn var síðan hringferðin okkar um landið. Ég held að öll kunnum við enn betur að meta fallega landið okkar og höfum uppgötvað staði sem við þekktum ekki og enn fleiri sem okkur langar að kynnast. Námið var yfirgripsmikið og vakti áhuga minn á fuglum, blómum, kirkjum og jarðfræði svo eitthvað sé nefnt og það kom mér á óvart hvað mér fannst námsefnið allt skemmtilegt. Námið hefur opnað ýmsar dyr til að starfa sem leiðsögumaður. Eftir fyrstu önnina, í fyrrasumar, starfaði ég hjá SBA og ég hlakka til að halda áfram á þeirri braut hvort sem það verður sem leiðsögumaður í rútu eða ökuleiðsögumaður. - Marta Einarsdóttir

Upphafsdagur

There a no startdates for this programme yet.

Áhugavert námskeið sem vert er að skoða