fbpx

Framtíðarleiðtoginn – Áhrifarík forysta og samskiptafærni stjórnenda

- Stjórnun og færni

Yfirlit

Víða um heim er kallað eftir breyttum áherslum forystufólks á ýmsum sviðum samfélagsins til að bregðast við þeim ólíku framtíðaráskorunum sem við okkur blasa. Á þetta ekki síst við um stjórnendur skipulagsheilda sem standa frammi fyrir kröfum um margþætta þekkingu og hæfni í samræmi við stefnu skipulagsheilda í átt að tilteknum markmiðum. Kallað hefur verið eftir því að leiðtogar framtíðarinnar taki ábyrgð, búi yfir góðri samskiptafærni, sýni samstarfsvilja, réttsýni og beri hag fólksins, samfélagsins og umhverfisins fyrir brjósti. Í samræmi við þetta ákall má nú greina breyttar áherslur hjá skipulagsheildum, hvort heldur sem er hjá fyrirtækjum eða stofnunum, sem tengjast í auknum mæli innleiðingu samfélagslegrar ábyrgðar og sjálfbærni í stefnu og rekstri skipulagsheilda. Því samhliða er lögð áhersla á árangursrík samskipti við starfsfólk og aðra hagsmunaaðila enda eru samskipti kjarni þess að hafa áhrif og hrífa fólk í ákveðna átt, sérstaklega á tímum áskorana og breytinga.

Námskeiðið dregur fram þessar breyttu áherslur og er ætlað þeim sem vilja efla þekkingu sína og getu sem framtíðarleiðtogar með því að nýta sér áhrifaríka forystu og samskiptafærni.

Fyrirkomulag fjarnáms

Námskeiðið er allt í fjarnámi og fara tímar fram á Zoom. Fyrir hvern tíma skulu nemendur undirbúa sig með því að kynna sér það efni sem kennarar hafa undirbúið fyrir tímann á kennsluvefnum Canvas. Á námskeiðinu eru fyrirlestrar um námsefni dagsins í fyrri hluta hvers tíma (glærur úr fyrirlestrum verða aðgengilegar stuttu fyrir hvern tíma) og seinni hlutinn er nýttur í umræður og verkefnavinnu. Tímarnir verða ekki teknir upp heldur þarf að mæta í þá á rauntíma.

Efnisskrá

Markmið þessa námskeiðs er að veita innsýn í nýjustu fræði um áhrifaríka forystu og samskipti. Einnig að huga að hvernig nýta megi þá þekkingu til að ná árangri í forystuhlutverki innan skipulagsheilda með tilliti til sjálfbærni, samfélagslegrar ábyrgðar og að hrífa fólk í ákveðna átt til að auka líkur á að markmiðum sé náð.

Námskeiðinu er ætlað að brúa bilið milli fræða og hagnýtingar í daglegum störfum í forystuhlutverki. Námskeiðið leggur því upp með að veita þeim sem sækja námskeiðið hagnýt tól og leiðir sem núverandi eða framtíðarstjórnendur og -leiðtogar til að skapa grundvöll fyrir náinni samvinnu, trausti og sameiginlegum vexti gagnvart öllum hagaðilum til framtíðar.

Inntökuskilyrði

Engin inntökuskilyrði eru fyrir námskeiðið önnur en brennandi áhugi á stjórnun, forystu og áhrifaríkum samskiptum. Námskeiðið er á vegum Símenntunar Háskólans á Akureyri.

Dagskrá

Fyrirlestrar, umræður og verkefnavinna fara fram í tímum tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 19:30 – 21:30.

Nemendur skulu gera ráð fyrir að eyða átta tímum á viku í námskeiðið, fjórum tímum í undirbúning fyrir tímana og fjórum tímum í fyrirlestra, umræður og verkefnavinnu (32 tímar samtals fyrir 4 vikur).

Kennarar

Smelltu á myndina til að sjá nánari upplýsingar um kennarann.

Upphafsdagur
Upphafsdagur20 Jan 25
Tímalengd
Verðkr 85.000

Áhugavert námskeið sem vert er að skoða