MBA námið að hefjast
Það er alltaf jafn skemmtilegt að taka á móti nýjum nemendum hérna á Akureyri á kynningardögum fyrir MBA námið. Námið er í fullu fjarnámi og því mikilvægt fyrir fólk sem er að hefja þessa vegferð að ná tengingu við aðra nemendur og starta vetrinum saman.
Að þessu sinni voru því miður mun færri nemendur sem náðu að mæta en áður en góð tengsl og skemmtilegur andi var meðal hópsins. Hópurinn fékk fræðslu og erindi úr ýmsum áttum.
Auðbjörg Björnsdóttir forstöðumaður kennslumiðstöðvar HA hefur kennt og hannað námskeið í fjarnámi um árabil. Auðbjörg er með Ph.D í kennslufræði frá Háskólanum í Minnesota og fór yfir hvernig best er að vinna í fjarnámi. Sigríður Ásta Björnsdóttir upplýsingafræðingur (ekki systir Auju samt 😉 ) mætti til að kenna nemendum á heimildarvinnu, RefWorks og fleiri tól til einföldunar á vinnu við MBA námið. Því næst fengum við Magnús Smára Smárason lágkóða gagnagrúskara með erindi um gervigreind og hvernig nemendur geta nýtt sér hana sem og hvaða áskoranir og hættur þau standa frammi fyrir.
Hópurinn fór einnig í heimsókn á Drift EA sem er óhagnaðardrifið og sjálfstætt hreyfiafl sem styður við nýsköpun og frumkvöðla á svæðinu. Sesselja Ingibjörg Barðdal framkvæmdastýra tók þar á móti okkur og kynnti okkur fyrir starfseminni sem mun fara þar fram. Einstaklega áhugavert og mikil tilhlökkun að sjá verkefnið fara af stað, en áætlað er að opna í október. Á myndinni má einmitt sjá hópinn með Sesselju fyrir miðri mynd.
Eins og hefð er orðin fyrir hittist hópurinn síðan á Majó og skemmti sér vel ásamt því að snæða heimsklassa veitingar.
Laugardagurinn var vel nýttur með Chris Jagger í margskonar teymisvinnu og leiðtogafræðslu. Undanfarin áratug hefur Chris unnið sem ráðgjafi, fyrirlesari og vinnustofustjóri á sviði leiðtogafræða, teymisvinnu og gagnrýninnar hugsunar. Hann hefur mikinn áhuga á að fá fólk til að hugsa, ögra stöðnuðum venjum og leita að einfaldari, skemmtilegri og skilvirkari leiðum til að ná árangri. Hann starfar nú í stjórnendastöðu í David Attenborough byggingunni á svæði Cambridge háskólans og vinnur þar að verndunarverkefnum með sérstakri áherslu á að sporna gegn ólöglegri verslun með dýr í útrýmingarhættu.
Frábærir dagar með flottum hóp nemenda sem við hlökkum til að fylgjast með blómstra í náminu.