
Listmeðferð sem leið til sjálfstyrkingar
Grunnnámskeið í listmeðferð, sem haldið er á vegum Símenntunar Háskólans á Akureyri, lauk núna í maí. Námskeiðið hefur fengið frábærar viðtökur og nú þegar eru biðlistar fullir fyrir næsta námskeið sem hefst í september 2025. Þátttakendur lýsa námskeiðinu sem frelsandi, styrkjandi og áhrifaríku ferðalagi inn á við – þar sem listin gegnir lykilhlutverki í því að tengjast eigin tilfinningum og efla sjálfstraust.
Öflug kennsla með áratuga reynslu
Kennari námskeiðsins, Dr. Unnur Óttarsdóttir hefur kennt listmeðferð víða, þar á meðal á eigin stofu frá árinu 1992, við Símenntun Háskólans á Akureyri frá 2013 og í Listaháskóla Íslands frá 2014.
„Námskeiðið gekk vonum framar og virtust nemendurnir vera ánægðir. Hópurinn var frábær.“ segir Unnur og bætir við að nemendur hafi fyllt út matslista sem gefa dýrmæta innsýn í áhrif námskeiðsins.

Ný námskeið í undirbúningi – og ný námsleið í vændum
Áætlað er að fleiri grunnnámskeið verði haldin í haust 2025, og í framhaldinu verður boðið upp á nýtt 10 eininga (ígildi) námskeið í listmeðferð. Fimm eininga (ígildi) grunnnámskeiðið er nauðsynlegur undirbúningur fyrir þá sem ætla sér áfram í framhaldið. Næsta námskeið hefst það 5. september og fylltist það um leið enda var þegar kominn langur biðlisti. Ef þú vilt skrá þig á biðlista fyrir næstu grunnnámskeið, sendu þá póst á smha@smha.is.
Mikil vinna hefur farið fram sem miðar að því að koma náminu á næsta stig og er þetta fyrsta skrefið að bjóða upp á þessi fimm eininga (ígildi) grunnnámskeið og í framhaldinu 10 eininga (ígildi) námskeið sem munu að öllum líkindum gilda inn í nám í Listmeðferð í framtíðinni.
„Það verður í fyrsta skipti sem boðið verður upp á 10 eininga (ígildi) námskeið í listmeðferð á Íslandi og það er spennandi þróun,“ segir Freydís Heba verkefnastjóri hjá Símenntun HA og bendir á síaukinn áhuga á þessu sviði.
Sjónrænt og skapandi andrúmsloft
Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum, lestri, verkefnavinnu, umræðum og vinnustofum þar sem þátttakendur fá að skapa og kanna tilfinningar sínar í gegnum listsköpun. Ljósmyndir frá námskeiðinu sýna einlæga stemningu og djúpa einbeitingu.
„Nú á ég rödd – og ég finn að ég er hugrakkari“
Ein af þátttakendunum, Gróa Svanbergsdóttir, lýsti áhrifum námskeiðsins á einstakan hátt:
„Það besta við námskeiðið var:
Að þurfa ekki endilega að vera myndlistarmaður.
Að finna frelsistilfinninguna sem fylgir því að vinna verkefnin á þessu námskeiði.
Röddin og hugrekkið sem ég fann meira fyrir hjá mér eftir að vera á námskeiðinu – nú á ég rödd og ég finn að ég er hugrakkari.
Námskeiðið hafði mjög góð áhrif á líðan mína. Þetta var svo skemmtilegt.
Þetta var frábært námskeið sem ég hefði ekki viljað missa af.“
Slíkar umsagnir gefa innsýn í það hversu áhrifaríkt námskeiðið getur verið – og hversu mikilvægt það er að skapa öruggt rými þar sem einstaklingar fá að vinna með sig í gegnum listina.