fbpx

Heyrnarfræði á Háskóladeginum

Þann 12. mars s.l. var Háskóladagurinn haldinn í Háskólanum á Akureyri og mættum við frá Símenntun HA með kynningu á grunnnáminu í heyrnarfræði við Örebro háskóla í Svíþjóð sem er í boði í gegnum okkur í blönduðu fjarnámi.

Allir háskólar landsins standa að Háskóladeginum og er tilgangurinn að kynna fjölbreytt námsframboð sem í boði er á Íslandi. Öllum framhaldsskólanemendum á Norðurlandi er boðið á daginn og er dagurinn einnig opin öllum áhugasömum. Á staðnum geta gestir spjallað við sérfræðinga frá öllum námsleiðum grunnnáms, bæði stúdenta og starfsfólk.

Heyrnarfræði námið var í fyrsta sinn í boði í fyrra og var mikil aðsókn í námið en aðeins örfá pláss í boði. Enn er að komast reynsla á þetta samstarf en það lofar góðu. Grunnnámið gefur nemendum mjög góða starfsmöguleika þar sem mikil vöntun er á heyrnarfræðingum á Íslandi og hafa nemendur hingað til þurft að flytjast erlendis til að stunda þetta nám. Í fyrra breyttist það þegar Símenntun HA, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) ásamt Örebro Háskóla og heilbrigðisráðherra gerðu með sér samning þess efnis að hægt verði að sækja bóklega námið í 100% fjarnámi og HTÍ sjái um verklegu kennsluna.

54392712955_6fc6ea9a37_k
54392338341_d1d40fc1d8_k
54391460652_a21a58714d_k

Mikil fjöldi lagði leið sína í HA og var einstaklega skemmtilegt að kynna námið fyrir gestum. Sérstaka athygli vakti hún Hildur Heimisdóttir kennsluráðgjafi hjá HTÍ sem kynnti námið og störf heyrnarfræðinga í gegnum fjarbúnað á hjólum. Hildur átti í engum vandræðum með að stjórna búnaðinum og "rölta" um svæðið og spjalla við áhugasama framhaldsskólanemendur.

Búið er að opna fyrir umsóknir í námið fyrir haustönnina 2025 og eru eins og í fyrra aðeins nokkur pláss í boði. Nú þegar hefur mikill fjöldi umsókna borist og finnst okkur það afar ánægjulegt enda með eindæmum gott að geta haft milligöngu um að fleiri námsleiðir séu í boði á Íslandi og sérstaklega í fjarnámi þar sem búseta hefur ekki jafn mikil áhrif á námsval og áður.

Eyrún Þóra Sigurjónsdóttir

Eyrún Þóra Sigurjónsdóttir er ein þeirra sem komst inn í námið í fyrra. Eyrún hefur þetta að segja um námið og námsformið sem er með blönduðu sniði:

Heyrnarfræðinámið er fjölbreytt og spennandi. Það er kennt í fjarnámi, þar sem fyrirlestrar fara fram á sænsku (með möguleika á enskum texta), flest lesefni er á ensku og verkefnum er skilað á ensku.

Á fyrsta ári er farið í grunnnámskeið, sem vissulega geta verið krefjandi, en námið verður sífellt meira spennandi þegar farið er í sérhæfðari viðfangsefni og verklega þjálfun. Allt verklega námið fer fram hér á Íslandi, en það er ómetanlegt að komast út í Campusveckan í upphafi skólaárs, hitta samnemendur og kennara og upplifa skólabraginn í Svíþjóð.

 

Heyrnarfræði er þverfagleg grein sem tengist fjölmörgum sviðum og býður upp á fjölbreyttar starfsleiðir – allt frá klínísku starfi til rannsókna og kennslu. Á Íslandi er skortur á heyrnarfræðingum, og sem heyrnarfræðingur geturðu raunverulega breytt lífi fólks. Að hjálpa einhverjum að heyra betur getur tengt hann eða hana aftur við umheiminn og haft djúpstæð áhrif á lífsgæði þeirra.

Af hverju valdi ég heyrnarfræði?

Ég er tónlistarkennari og tónlistarkona og hef oft verið í háværum aðstæðum, sem vakti áhuga minn á heyrnarheilsu og verndun heyrnar. Fyrir nokkrum árum skoðaði ég nám í skandinavískum háskólum og rakst á heyrnarfræði, sem hljómaði strax spennandi – en ég var ekki tilbúin að flytja út í nám á þeim tíma. Þegar ég sá að Háskólinn á Akureyri, í samstarfi við Örebro og HTÍ, bauð upp á fjarnám í greininni, þá greip ég tækifærið – og sé svo sannarlega ekki eftir því!

Hvernig hefur gengið að fylgjast með fyrirlestrunum í þessu formati?

Það var miserfitt í upphafi, en sænskan er fljót að koma og kennarar og samnemendur eru þolinmóðir og mjög hjálpsamir. Fyrirlestrarnir eru líka textaðir á ensku, sem auðveldar mjög að fylgjast með og læra.

Mælir þú með þessu námi?

Já, tvímælalaust! Námið er gefandi og fjölbreytt og býður upp á raunveruleg tækifæri til að bæta lífsgæði fólks.

Opið er fyrir umsóknir til 15. apríl 2025, hér má fara á skráningarsíðuna!