
Fuglaskoðun og próf
Vellukkaðri staðarlotu í leiðsögunámi lokið
Síðasta staðlota vetrarins í leiðsögunámi Símenntunar Háskólans á Akureyri fór fram dagana 1.–4. maí og tókst með miklum ágætum. Nemendur komu saman víðs vegar að og tóku þátt í fjölbreyttri og lifandi dagskrá þar sem lögð var áhersla á verknám, vettvangsferðir og fagleg samskipti við aðila í ferðaþjónustu.
Auk þess að ljúka munnlegu prófi í náminu fóru nemendur í fjölbreyttar vettvangsferðir sem einkenna leiðsögunámið hjá SMHA. Þar má nefna hvalaskoðun, fuglaskoðun og veglega dagsferð í Mývatnssveit með áherslu á jarðfræði og sögu svæðisins. Veður lék við hópinn alla dagana og gafst einstakt tækifæri til að sjá bæði hnúfubaka, hnísur og hrefnur úti á Skjálfanda, auk þess sem yfir tuttugu fuglategundir sáust í Svalbarðseyri, í Kjarnaskógi og við Mývatn.
Ferðaþjónustuaðilar tóku opnum örmum á móti verðandi leiðsögumönnum, deildu reynslu sinni og fróðleik um svæðin og veittu dýrmæt ráð sem munu nýtast vel í framtíðarstarfi nemenda. Það er ómetanlegt að geta byggt brú á milli náms og atvinnulífs með þessum hætti.
Nú er fyrsta önn af þremur að baki og hlökkum við hjá SMHA til áframhaldandi samstarfs við þennan áhugasama, fróðleiksfúsa og jákvæða nemendahóp.