Demantshringurinn og gervigreind
Haustönn í leiðsögunámi Símenntunar Háskólans á Akureyri hófst með krafti dagana 29.–31. ágúst þegar nemendur komu saman í fyrstu staðlotu annarinnar. Lotan markaði upphaf síðari annar námsins og bauð upp á fjölbreytta dagskrá þar sem fræðileg vinnustofa og vettvangsnám fléttuðust saman með einstaklega skemmtilegum hætti. Námið er þriggja anna nám sem lýkur vorið 2026.
Í staðlotunni fengu nemendur m.a. fyrirlestur um notkun gervigreindar í leiðsögn, innsýn í mikilvægi raddbeitingar og gerðu æfingar fyrir röddina – sem er eitt af lykiltækjum leiðsögumannsins. Allar staðarlotur enda á vettvangsferð og nú var hún af lengri gerðinni.
Staðlotunni lauk með einstakri dagsferð um hinn svokallaða Demantshring, sem spannar stórbrotin náttúrusvæði norðausturlands. Fyrsti viðkomustaðurinn var Dettifoss, þar sem náttúran sýndi okkur annan og sjaldgæfan svip – mikill þoka lá yfir svæðinu og nær ekkert sást til fossa né gljúfra, en krafturinn í fossinum heyrðist þó vel. Slík upplifun minnir á mikilvægi þess fyrir leiðsögunema að kynnast öllum hliðum starfsins – líka þegar veðrið vinnur ekki með manni.
Ferðin hélt áfram með viðkomu á mörgum af perlum svæðisins: Hólmatungum, Hljóðaklettum og Ásbyrgi, þar sem nemendur skoðuðu bæði þjónustu- og aðstöðu staðanna og fóru í stuttar göngur. Þokan og súldin fylgdu hópnum mestan hluta ferðarinnar, en gleðin og samheldnin í hópnum héldu andanum léttum allan tímann.
Að lokum var ekið til Húsavíkur þar sem komið var við á áhugaverðum stöðum eins og Hvalasafninu, Eurovision-safninu og kirkjunni áður en haldið var aftur til Akureyrar.
